Actavis hefur keypt Zhejiang Chiral Medicine Chemicals Company í Kína sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu virkra lyfjaefna. Actavis kaupir 90% hlut í fyrirtækinu eftir því sem kemur fram í tilkynningu félagsins.

„Kaupin eru liður í því markmiði Actavis að lækka framleiðslukostnað með því að framleiða eigin virk lyfjaefni, og selja virk lyfjaefni til annarra lyfjafyrirtækja,“ segir í tilkynningunni.

Actavis er þegar með sambærilega starfsemi á Indlandi.

Fram kemur í tilkynningu Actavis að saman myndi starfsstöðvarnar „sterkan grunn fyrir Actavis til að lækka kostnað og sækja fram á þessu sviði.“

„Kaupin á verksmiðju Chiral eru mikilvægt skref í vexti Actavis og skapa okkur tækifæri til að lækka enn frekar framleiðslukostnað félagsins, sem að sama skapi eykur enn samkeppnishæfni Actavis á næstu árum,“ segir Róbert Wessman, forstjóri Actavis.

Um Chiral

Chiral var stofnað árið 2001 og eru starfsmenn félagsins yfir 200, í verksmiðjunni sem staðsett er nærri Hangzhou í Kína. Auk Chiral rekur Actavis lyfjaverksmiðju í Guangdong í Kína, þar sem framleidd eru lyf í töflu- hylkja- og vökvaformi, auk krema og smyrsla. Eftir kaupin á Chiral eru starfsmenn Actavis í Kína um 500 talsins.