Erlendar skuldir einkaaðila sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru áætlaðar um 2.700 milljarðar króna, 181,7 prósent af vergri landsframleiðslu (VLF), í lok árs 2009. Reiknað er með að þær skuldir muni lækka jafnt og þétt næstu fimm árin og að þær verði 95,9 prósent af VLF í lok árs 2014.

Þetta kemur fram í gögnum sem unnin eru upp úr tölum frá Seðlabanka Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) studdist við þegar hann endurskoðaði efnahagsáætlun Íslands.

Actavis og álverin

Um 70 prósent erlendra skulda einkaaðila sem hlutfall af VLF eru vegna fjármögnunar eins fyrirtækis, lyfjarisans Actavis. Skuldin er á gjalddaga á árunum 2014 til 2016. Í gögnunum sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum er gert ráð fyrir því að létt verði á þessari skuldabyrði, en Actavis hefur verið í endurskipulagningarferli um margra mánaða skeið. Það ferli miðar að því að sameina fyrirtækið öðru, setja það á markað eða selja það. Um 95 prósent af starfsmönnum og tekjum Actavis eru utan Íslands. Þessi eina skuldbinding hefur veruleg áhrif á stærð erlendra skulda einkaaðila.

Þá eru um 40 prósent skuldanna sem hlutfall af VLF vegna skulda dótturfélaga við móðufélög. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þetta séu að mestu skuldir þeirra álvera sem starfa á Íslandi við móðurfélög sín.