Viðskipti voru stöðvuð í bréfum ástralska samheitalyfjafyrirtækisins Mayne Pharma á þriðjudag, en talið er að fyrirtækið eigi von á yfirtökuboði, sem muni hljóða upp á að minnsta kosti 105 milljarða króna, segir í frétt Dow Jones.

Greiningaraðilar telja að lyfjafyrirtækin Hospira frá Bandaríkjunum, Novartis frá Sviss og Teva Pharmaceutical Industries frá Ísrael séu líklegust til að bjóða í Mayne. Fjárfestingabankinn JP Morgan sagði að Barr Pharmaceuticals og Actavis gætu einnig verið mögulegir kaupendur, segir í fréttinni.

Greiningaraðilar JP Morgan segja að barátta Actavis og Barr um króatíska lyfjafyrirtækið Pliva hafi snúist um markaðsumsvif í Evrópu og að það fyrirtæki sem tapi þeirri baráttu muni þurfa að finna annan kost af svipaðri stærð, en Mayne sé eitt af fáum fyrirtækjum af þeirri stærðargráðu sem starfa í Evrópu í dag, segir í fréttinni.

Mayne fór fram á stöðvun viðskipta í gær vegna þess að möguleg viðskipti myndu hafa áhrif á gengi hlutabréfa fyrirtækisins. Ekki eru þó allir greiningaraðilar sammála um að yfirtöku sé að ræða og telja sumir að Mayne sé að undirbúa stækkun fyrirtækisins, segir í fréttinni.

Höfuðstöðvar Mayne eru nú í London og hefur fyrirtækið íhugað skráningu þar, en um helmingur af sölu Mayne fer fram í Evrópu.