Actavis plc, móðurfélag Actavis á Íslandi, birti afkomu sína fyrir fyrsta ársfjórðung í Kauphöllinni í New York í gær. Tap fyrirtækisins nam 512 milljónum dala á tímabilinu.

Hagnaður fyrirtækisins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir nam 1,8 milljarði dala á tímabilinu, en það er rúmlega tvöfalt meira en ári fyrr. Tekjur fyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi jukust um 59% milli ára í 4,23 milljarða daga. Ef tekið er tillit til óvenjulegra liða jókst hagnaður á hlut um 23% í 4,3 dali á tímabilinu frá fyrra ári. Sé hins vegar ekki tekið tillit til óvenjulegra liða nam tap á hlut 1,85 dölum samanborið við 0,86 dala hagnað á sama tíma fyrir ári.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að afkoman hafi orðið fyrir áhrifum af afskriftum og kostnaði vegna fyrirtækjakaupa, aðallega vegna kaupa Actavis á Allergan þann 17. mars 2015 og Forest Laboratories þann 1. júlí 2014.

Handbært fé frá rekstri nam 525 milljónum dala á tímabilinu og handbært fé og markaðsverðbréf námu 2,13 milljörðum dala þann 31. mars 2015.

Hægt er að skoða uppgjörstilkynningu fyrirtækisins í heild sinni hér.