Gamanmyndin Síðasta veiðiferðin, sem fjallar um hóp vina sem fer í nokkurra daga veiðitúr í Mýrarkvísl, sló eftirminnilega í gegn á síðasta ári. Síðustu tvær vikur hafa staðið yfir tökur á framhaldsmynd, sem ber heitið Allra síðasta veiðiferðin. Stefnt er því að sýna myndina í byrjun mars á næsta ári, mögulega fyrr.

Leikstjórar og handritshöfundar eru þeir Þorkell S. Harðarson og Örn Marinó Arnarson. Að sögn Þorkels er stefnt að því að gera fimm myndir í þessari seríu.

„Ef þig dreymir smátt þá gerirðu smátt en ef þú leyfir þér að hugsa stórt og klikkar þá endarðu samt hærra en ef þú hugsar smátt,“ segir Þorkell. „Við sögðum alltaf að þetta yrðu í heildina fimm myndir en allir hlógu að okkur. Nú erum við að taka upp mynd númer tvö og erum klárir með handrit að þeim þremur sem eftir eru.“

Í Allra síðustu veiðiferðinni eru þeir félagar við veiðar í Laxá í Aðaldal. Um söguþráð nýju myndarinnar segir Þorkell að vegurinn til helvítis sé varðaður góðum ásetningi.

„Þetta á að vera besti túr ever en hratt og örugglega fer allt til andskotans. Svo tekur lífið við og fólk þarf að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna og framkomu sína í garð annarra. Þó myndin gerist í veiði þá er þetta mynd um vináttu og samskipti.“

Æðarfossar, skammt frá ósum í Laxár í Aðaldal, eru einhver fallegasti veiðistaður landsins. Spurður hvort veiðifélagarnir fari eitthvað þangað svarar hann: „Þar tökum við upp stórslysasenu. Við fréttum að ónefndur ráðherra hafi misst bát niður fossana fyrir fáum árum og munum skoða hvernig það er hægt.“

Nánar má lesa um málið í sérblaðinu Veiði sem fylgir Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal efnis í Viðskiptablaðinu er:

  • Sagt er frá sölu Davíðs Helgasonar á bréfum í Unity.
  • Greint er frá risasamningi Arctic Trucks á Norðurlöndunum.
  • Umfjöllun um milljarðaþroti fasteignafélags í kjölfar gengislánadóma.
  • Fjármálaráðherra ræðir skráningu Íslandsbanka á markað.
  • Fjallað um athugasemdir fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda, í málum Lindarhvols, um skýrslu Ríkisendurskoðunar.
  • Lífeyrissjóðir telja sig hlunnfarna eftir viðskipti við fjárfestingafélag og vilja rúmlega hálfan milljarð króna í bætur.
  • Eignarhaldsfélag sem heldur utan um heyrnatólavörumerki sem er sérsniðið að þörfum barna, hefur ráðist í hlutafjáraukningu.
  • Rætt við Hrönn Margréti Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Ankra ehf - Feel Iceland um viðtökur við drykknum Collab og fyrirhugaðan útflutning.
  • Óðinn fjallar um háskattalandið Ísland og prófkjör Sjálfstæðisflokksins.
  • Huginn og muninn eru á sínum stað auk Týs.