Útgáfufélag Fréttablaðsins, Torg, hefur tekið upp nýtt skipurit sem felur meðal annars í sér að Kristín Þorsteinsdóttir hættir sem aðalritstjóri blaðsins. Hún verður áfram útgefandi og er sagt í Fréttablaðinu að hún muni einbeita sér að rekstri fréttastofunnar.

Fjórir nýir ritstjórar verði hins vegar ráðnir yfir blaðið, hver með sitt hlutverk. Þannig mun Hörður Ægisson áfram ritstýra viðskiptahluta Fréttablaðsins, en aðrir ritstjórar við hlið hans verða þau Kjartan Hreinn Njálsson, Ólöf Skaftadóttir og Sunna Karen Sigurþórsdóttir. Sú síðastnefnda mun ritstýra vefútgáfu Fréttablaðsins.

Sigrún L. Sigurjónsdóttir mun svo áfram stýra fjármálasviðinu og Elmar Hallgríms Hallgrímsson sölu, greiningu og dreifingu. Loks hefur verið stofnuð ný deild, Stafræn verkefni, IT og markaðsmál sem Jóhanna Helga Viðarsdóttir mun stýra.