„Reglur er nauðsynlegar en við þurfum að gæta að því að flækjustigið verði ekki þvílíkt að við missum sjónar af því sem raunverulega skiptir máli,“ segir Aðalsteinn Leifsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins (FME). Hann bent á það á ársfundi FME í dag að í sumum tilvikum ýti fjármálafyrirtæki á að settar séu reglur um áhættusöm viðskipti fremur en að banna þau. Hann telur þó skynsamlegra að banna ákveðin viðskipti fremur en að setja þeim flóknar reglur og yfir þau kostnaðarsamt eftirlit. Hann nefndi rekstur smálánafyrirtækja sem dæmi um það.

„Stundum kann einnig að vera skynsamlegt að setja niður meginreglur og að treysta á dómgreind eftirlitsaðilans, fremur en að hafa reglurnar ítarlegar og margslungnar,“ bætti Aðalsteinn við en lagði áherslu á að hann ætlaði ekki að draga úr nauðsyni þess að endurskoða og bæta lög og reglur í kjölfar fjármálahrunsins.

Styður samstarf FME og Seðlabankans

Hann kom jafnframt inn á þær tillögur sem Jón Sigurðsson, Gavin Bingham og Kaarlo Jannari settu fram í síðustu viku um rammalöggjöf um fjármálastöðugleika og skilvirkt fjármálakerfi. Aðalsteinn sagði þær virðast við fyrstu sýn skynsamlegar, ekki síst tillögur um aukið samstarf milli FME og Seðlabankans

„Í þessari vinnu er þó lykilatriði að gæta þess að löggjöf og reglur séu skýrar og jafnframt að ábyrgð og umboð fari saman þannig að alltaf sé ljóst hver hlutverkaskipanin er,“ sagði Aðalsteinn.

Tækifæri nú til aðskilnaðar

Aðalsteinn kom jafnframt inn á aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka og benti á að fjárfestingarstarfsemi íslensku bankanna sé nú mjög takmörkuð og því tækifæri til að draga úr umfanginu.

„Að sjálfsögðu er óásættanlegt að almennir innstæðueigendur og skattgreiðendur beri óþarfa áhættu og mögulegan kostnað vegna áhættusamra fjármálagerninga. Þess vegna er mikilvægt að fara vel yfir leiðir til að draga úr þeirri hættu. Við skulum þó hafa í huga að hreinir viðskiptabankar eru ekki án áhættu og hrun fjárfestingabanka getur haft víðtækar afleiðingar. Meðal annars þess vegna er mikilvægt að vanda vel til umræðu og framkvæmda á þessu sviði.“