*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 6. desember 2011 09:36

Aðalsteinn: Leggjum niður nefnd um erlenda fjárfestingu

Segir mikilvægt að mótuð sé skýr opinber stefna um erlendar fjárfestingar en að ákvarðanir séu ekki handahófskenndar.

Ritstjórn
Aðalsteinn Leifsson, lektor við HR og formaður stjórnar FME.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Réttast er að leggja niður nefnd um erlenda fjárfestingu og afnema lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnugreinum hér á landi.

Þetta sagði Aðalsteinn Leifsson, lektor við viðskiptadeild við HR, á fundi Viðskiptaráðs um erlenda fjárfestingu sem nú fer fram.  Aðalsteinn kynnti tillögur starfshóps sem hann stýrði um stefnu stjórnvalda um erlenda fjárfestingu.

Aðalsteinn sagði að mikilvægt væri að hér á landi ríki samfélagsleg sátt um erlenda fjárfestingu. Fjárfestingin þyrfti að leiða af sér aukin störf og fara fram í sátt við samfélagið.

Aðalsteinn sagði að strangar og skýrar reglur væri væru ekki vandamál. Hins vegar væri óvissan, t.d. óvissa um meðferð og tímalengdir á meðhöndlun mála, vinnuaðferðir stjórnvalda, skattastefnan og mismunandi skilaboð sem stjórnvöld hafa sent, það sem fælir frá fjárfesta og erlenda fjárfestingu.

Þannig sagði Aðalsteinn mikilvægt væri að stjórnvöld settu skýra stefnu um beina erlenda fjárfestingu. Hann lagði jafnframt til að lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri yrðu afnumin og að nefnd um erlenda fjárfestingu yrði lögð niður. Aðalsteinn tók sérstaklega fram í máli sínu að hann væri ekki að boða laissez faire stefnu eða frjálshyggju í þessum málaflokki, heldur væri nauðsynlegt að hafa einfaldar og skýrar reglur um málið og það sama þyrfti að gilda um allar atvinnugreinar.

Aðalsteinn nefndi sérstaklega málefni Huang Nubo, sem nýlega var hafnað um leyfi til að kaupa Grímsstaði á Fjöllum eins og kunnugt er. Aðalsteinn sagði að þar hefði legið mikið land undir og mögulega kunni að vera málefnalegar forsendur fyrir því að synja Nubo um leyfið. Hann sagði þó að allt benti til þess að ákvörðun ráðherra væri handahófskennd og slíkt myndi til lengri tíma fæla fjárfesta frá landinu.

Þannig sagði Aðalsteinn að ef það væri vilji stjórnvalda að takmarka möguleika erlendra aðila á því að eignast landsvæði hér á landi, þá þyrfti að móta skýra stefnu um það. Skýr og einföld lög myndu ekki fæla frá fjárfesta, jafnvel þó þau væru ströng, heldur væru það handahófs kenndar ákvarðanir sem fæla frá fjárfesta.