„Við erum að horfa sérstaklega til þeirra sem eiga erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman. Greiningarnar okkar miða að því að reyna að finna og greina þá sem standa hvað verst hvort sem það er á þann mælikvarða eða annan eins og að búa við efnislegan skort,“ segir Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins og ábyrgðaraðili könnunar á stöðu launafólks sem stofnunin birti nýlega.

Niðurstöður þeirrar greiningar sýni sama mynstur og aðrar rannsóknir, til að mynda Hagstofunnar, um að þar séu einstæðir foreldrar og leigjendur hlutfallslega flestir. Í rannsókn Vörðu fáist hins vegar mun skýrari mynd af þriðja slíka hópnum, innflytjendum, hvers fjárhagsstaða sé mun verri en innfæddra.

Aðferðin byggði á svokölluðu heildarþýðisúrtaki (e. Total population sampling) meðal félagsfólks ASÍ & BSRB og var valin að miklu leyti til að afla sem ítarlegastra upplýsinga um innflytjendur og leitast með því við að fylla í skarð sem farið hefur vaxandi síðustu ár.

„Í rannsóknum með tilviljanakenndu úrtaki hefur reynst mjög erfitt að ná til innflytjenda á vinnumarkaði. Svarhlutfall þess hóps er alla jafna mjög lágt í slíkum könnunum,“ segir Kristín, en innan þýðisins – sér í lagi ASÍ – er að finna hæsta hlutfall innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á föstudag.