Þýski íþróttavörurisinn Adidas varaði við því í gær að það gæti skilað tapi í ár ef félagið nær ekki að selja birgðir sínar af Yeezy skónum, sem voru hannaðir í samstarfi við rapparann Kanye West. Hlutabréf Adidas hafa fallið um 10% í fyrstu viðskiptum í dag.

Adidas gerir ráð fyrir að sala félagsins muni dragast saman um allt að 10% vegna verulegra áhrifa af minni sölu Yeezy skónna. Þetta myndi leiða til þess að tekjur félagsins myndu falla um tæplega 1,2 milljarða evra og rekstrarhagnaður myndi lækka um ríflega hálfan milljarð evra í ár.

Adidas hefur haft til skoðunar að selja skóna undir öðru vörumerki. Gangi þær áætlanir ekki upp mun það leiða til þess að rekstrarhagnaður félagsins mun dragast saman um 500 milljónir evra til viðbótar. Auk þess gerir Adidas ráð fyrir einskiptiskostnaði upp á 200 milljónir evra í ár.

Í ljósi þessa gerir Adidas ráð fyrir að skila um 700 milljóna evra rekstrartapi í ár, eða sem nemur 105 milljörðum króna, ef félaginu tekst ekki að nýta birgðir sínar af Yeezy skónum.

Adidas hóf samstarf við Kanye West árið 2015. Samstarfið reyndist afar farsælt og var Yeezy með 8% hlutdeild af heildarsölu Adidas um tíma. Í kjölfar niðrandi ummæla West í garð gyðinga og kvartana starfsmanna um hegðun hans, ákvað Adidas í haust að slíta samstarfinu. Talið er að Yeezy birgðir fyrirtækisins séu nokkurra milljarða evra virði, að því er segir í frétt WSJ.

„Tölurnar segja sína sögu. Frammistaða okkar er ekki á þeim stað sem hún á að vera,“ segir Bjørn Gulden, sem tók nýlega við sem forstjóri Adidas, í afkomuviðvörun. „2023 verður ár umbreytinga til að leggja grunn svo við getum orðið vaxandi arðbært fyrirtæki á ný.“

Í umfjöllun WSJ segir að Adidas glími einnig við erfiðan markað í Kína. Auk þess hafi samstarf íþróttavörufyrirtækisins Beyoncé ollið verulegum vonbrigðum.