Gagnavers- og Ofurtölvufyrirtækið Advania Data Centers hefur fengið nýtt nafn, það er atNorth, sem vísa á til norrænnar staðsetningar gagnavera fyrirtækisins. Samhliða breytist merki félagsins og lén.

Eyjólfur Magnús Kristinsson forstjóri atNorth segir um rökrétt skref fyrir fyrirtækið sé að ræða þar sem félagið sé ekki lengur hluti af Advania samstæðunni og starfi alfarið á öðru sviði upplýsingatækninnar.

„Frá aðskilnaðinum við Advania  árið 2017 höfum við einbeitt okkur að því að styrkja reksturinn, byggja upp tæknilega innviði, efla þjónustuna og sölustarfið okkar með frábærum árangri,“ segir Eyjólfur Magnús.

„Félagið hefur vaxið hratt, við höfum byggt ný gagnaver, stækkað þau eldri og viðskiptavinum okkar hefur fjölgað. Í ljósi þess að fyrirtækið er að ráðast í stór verkefni hérlendis og erlendis með það að markmiði að bæta þjónustur okkar enn frekar teljum við tímabært að gera það undir eigin merkjum og kynna atNorth nafnið til leiks.“

atNorth merki
atNorth merki
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Norðanáttin tryggir loftkælingu

Eins og áður segir á nýja vörumerkið atNorth að vísa til norræns uppruna fyrirtækisins, staðsetningar fyrstu gagnavera félagsins á Íslandi og norðanáttarinnar sem tryggir náttúrulega loftkælingu fyrir gagnaver atNorth. Nafnið er jafnframt sagt í tilkynningu táknrænt fyrir skýra sýn fyrirtækisins, þar sem norðrið er ein af höfuðáttunum fjórum og vísar upp, á topp tilverunnar.

Fyrirtæki sem reka ofurtölvuumhverfi eru sögð horfa sífellt meira til Norðurlandanna sem  heppilegrar staðsetningar fyrir gagnaver og ofurtölvubúnað, þar sem umhverfisvæn orka sé í boði og kjöraðstæður til góðrar orkunýtni sem sé eitt af megineinkennum þeirrar þjónustu sem atNorth veitir viðskiptavinum sínum sem staðsettir eru víðs vegar í heiminum.

„Það er gleðilegt að afhjúpa þetta nýja nafn félagsins, en okkar kjarni og gildi haldast óbreytt. Viðskiptavinir okkar geta áfram gengið að því vísu að ástríða okkar fyrir fyrsta flokks þjónustu, samkeppnishæfu verði, öryggi og sjálfbærni hefur ekki breyst,“ bætti Eyjólfur Magnús við.

atNorth – áður Advania Data Centers - er hátæknifyrirtæki á sviði gagnavera, ofurtölva, blockchain og gagnaversþjónustu sem hönnuð er til að hámarka reiknigetu viðskiptavina félagsins að því er segir í fréttatilkynningu.

Höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi en félagið er einnig með starfsemi í Svíþjóð, Hollandi, Belgíu og Bretlandi, en hjá því starfar hópur sérfræðinga á sviði gagnavera, ofurtölva og blockchain tækni.

Starfsemi atNorth, áður Advania Data Center sem snýr að ofurtölvum er jafnframt sagt hafa vaxið mikið en meðal viðskiptavina þess eru bæði fyrirtæki og stofnanir sem starfa í fjölmörgum greinum, svo sem við rannsóknir, í heilbrigðisgeiranum, í genarannsóknum, við framleiðslu og veðurfræði svo eitthvað sé nefnt.