Eftir kaupin á NIBC mun starfsemi Kaupþings dreifast mun betur á milli landa en til þessa. Minna en 40% af eignum Kaupþings verður á Norðurlöndum, samanborið við 66% í lok árs 2006 að því er kemur fram í frétt bankans. Þá verða einungis um 15% af eignum hans á Íslandi.

Í frétt Kaupþings kemur fram að bankinn verður síður háður tekjum frá Íslandi. Árið 2006 voru tekjur frá Íslandi um 33% af heildartekjum Kaupþings banka. Eftir samrunann mun þessi tala lækka í um 25% (pro-forma). Vægi tekna frá Norðurlöndum minnkar í 48% (pro-forma) úr 64% miðað við 2006.