Útgáfufélag dagblaðsins DV hefur ekki greitt iðgjöld fyrir fjölda núverandi og fyrrverandi starfsmanna blaðsins. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins nema skuldirnar hundruðum þúsunda fyrir einstaka starfsmenn. Þetta staðfestir Ólafur M. Magnússon, stjórnarformaður DV. „Þegar ég tók við í vor þá var nokkur uppsafnaður vandi hjá blaðinu hvað þessa hluti varðar,“ segir Ólafur. Hann segir félagið hafa staðið frammi fyrir töluverðum vanskilavanda í lok sumars en bætir við að aðhaldsaðgerðir sem hófust á síðasta ári séu farnar að skila árangri.

„Við erum að ganga frá samkomulagi við lífeyrissjóðina og stéttarfélögin um lúkningu þeirra skulda,“ segir Ólafur. „Á hluthafafundi nú í október verður lögð til hlutafjáraukning fyrir um 80 milljónir króna,“ segir Ólafur og telur víst að aukningin verði samþykkt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.