Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, kynnti hálfsársuppgjör félagsins og verkefni sem eru á döfinni á fundi í morgun. Fundurinn var vel sóttur af fjárfestum og greiningaraðilum.

Á fyrstu sex mánuðum ársins skilaði félagið 750 milljón króna hagnaði sem er 40% hærri en á sama tíma í fyrra. EBITDA félagsins var 1.321 milljónir króna á fyrri helming ársins sem er 14% hærra en árið 2013.

Nýtt fimleikahús í Egilshöll

Á næstu mánuðum hyggst félagið selja minni eignir á jaðarsvæðum og ráðast í skipulagsbreytingar og hagræðingu í rekstri. Meðal stærri verkefna er síðan aukin fjárfesting við Egilshöll, en félagið hyggst reisa fimleikahús og fleiri íþróttamannvirki þar á næstu árum.

Þá mun félagið einbeita sér að verslana- og þjónusturými í miðbænum sem Helgi segir vera skort á á svæðinu.

Eitt af stærstu verkefnum Regins á næstu mánuðum og árum verður þó án efa að gera breytingar á Smáralind, en Helgi lýsti því yfir á fundinum að verslunarmiðstöðinni verður breytt, bæði að innan og utan. Reginn á Smáralind sem er metin á 9.876 milljónir í fasteignamati á árinu 2014.

Vb sjónvarp tók Helga tali og spurði út í uppgjörið, breytinguna á Smáralind og önnur verkefni félagsins.