Finnski bankinn S-Pankki hefur keypt eignastýringarfyrirtækið FIM. Reuters-fréttastofan segir S-Pankki kaupa fyrsta kastið 51% hlut í FIM en stefni á að ljúka kaupum á fyrirtækinu öllu á fyrri hluta árs 2016 og stefni stjórnendur að því að með kaupunum verði til eitt stærsta eignastýringarfyrirtæki Finnlands.

FIM var skráð á hlutabréfamarkað í Finnlandi árið 2006. Í febrúar árið 2007 var svo tilkynnt um samning Glitnis um kaup á 68,1% hlut í fyrirtækinu auk þess sem stefnt væri að því að kaupa fyrirtækið allt. FIM var í kjölfarið afskráð. Kaupverðið nam á sínum tíma 341 milljón evra, jafnvirði 54 milljarða króna á núvirði. Þegar Glitnir fór á hliðina keyptu stjórnendur FIM reksturinn.

Reuters-fréttastofan segir að FIM sé með eignir upp á 2,2 milljarða evra, jafnvirði rúmra 350 milljarða íslenskra króna.