Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA Capital Management, segir eina hlið af fórnarkostnaði fjármagnshaftanna hafa verið þau að Íslendingar hafi ekki getað tekið þátt í fjárfestingum í þeirri öru tækniþróun sem er að eiga sér stað erlendis. Hann segir að GAMMA muni fjárfesta í því sem fjártæknin hefur upp á að bjóða.

Hvað er fram undan hjá GAMMA og hvaða áskoranir eru á sjóndeildarhringnum?

„Það er auðvitað áskorun að þjónusta viðskiptavininn með fjölbreytt úrval fjárfestingarkosta. Heimurinn og fjármálamarkaðir eru sífellt á hreyfingu og maður það þarf sífellt að vera á tánum; vöruþróun er lykillinn. Hingað til höfum við stofnað sjóði með eignaflokka sem hafa ekki verið aðgengilegir áður. Við sjáum fram á að stofna nokkra erlenda sjóði í ár í sérhæfðum fjárfestingum. Við ætlum að hlúa að því sem við höfum byggt upp hingað til, ásamt því að efla erlendu starfsemina; finna fjárfestingartækifæri fyrir innlenda fjárfesta á erlendum mörkuðum og erlenda fjárfesta á Íslandi.

Svo mun ráðgjafarstarfsemi GAMMA Ráðgjafar halda áfram að eflast og við höfum mjög frambærilega þjónustu fram að færa. Ráðgjöfin hefur skipst í efnahags- og fyrirtækjaráðgjöf, en við höfum frá upphafi lagt áherslu á að greina langtímaleitni í hagkerfinu, bæði hér heima og erlendis, og teljum okkur hafa mikla þekkingu á hagkerfinu. Það hefur nýst okkur í ráðgjöf og greiningu fyrir stjórnvöld, sjóði, sveitarfélög, fyrirtæki og erlenda viðskiptavini.

Við ætlum einnig að taka þátt í þeirri fjármálatækniþróun sem er að eiga sér stað í heiminum. Ein hliðin af fórnarkostnaði haftanna var að þau lokuðu á þann möguleika að taka þátt í fjárfestingum í þeirri öru tækniþróun sem er að eiga sér stað erlendis. Fjármálaþjónusta er í auknum mæli að færast yfir á netið. Það eru að eiga sér stað breytingar á upplýsingagjöf, til að mynda með persónuvernd og lánshæfismöt. Samkeppnin er því að aukast og rekstrarumhverfið að breytast. Við erum byrjuð að að taka þátt í þessu, til dæmis með Framtíðinni lánasjóði. Tækniþróunin er auðvitað áskorun en við ætlum að nýta okkur það sem tæknin hefur upp á að bjóða.“

Nánar er rætt við Valdimar Ármann í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .