Skatta- og efnahagsmál leika stóran þátt í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og stendur til að einfalda skattkerfið og breikka skattstofna með því að lækka skattprósenturnar að því er kemur fram í viðtali Morgunblaðsins við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins.

Skattkerfið verður einfaldað og einstaklingum gert kleift að halda eftir meira af tekjum sínum. Fráfarandi ríkisstjórn innleiddi þrjú skattþrep og verður núverandi milliþrepi breytt, skv. heimildum blaðsins. Þá er til skoðunar að breyta neyslusköttum og kemur til greina að hafa eitt virðisaukaskattsþrep auk þess sem fallið verður frá hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna. Á móti verður skoðað að taka upp gjald á ferðamannastöðum til að standa straum af kostnaði við viðhald og uppbyggingu þeirra.

Einnig verða gerðar breytingar á veiðigjöldum. Þannig á almenna gjaldið að taka mið af afkomu fyrirtækjanna en sérstaka veiðigjaldið verður reiknað á hvert fyrirtæki fyrir sig út frá afkomu þeirra. Er ætlunin að byggja á vinnu sáttanefndar um fyrirkomulag gjalda í sjávarútvegi.

Þá verður gólf fyrir útsvar sveitarfélaga afnumið þannig að þeim verði frjálst að hafa útsvarsgreiðslur íbúa sinna lægri en þær hafa getað verið til þessa.