Deilurnar í kringum söluna á útgerðarfélaginu Bergur-Huginn í Vestmannaeyjum, sem áður var í eigu Magnúsar Kristinssonar, til Síldarvinnslunnar í Neskaupstað halda nú áfram.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins undirbýr Vestmannaeyjabær að vísa málinu til Samkeppniseftirlitsins þar sem bærinn telur að Samherji, stærsti einstaki hluthafinn í Síldarvinnslunni, og tengd félög eigi eftir kaupin rúmlega 17% hlut í aflaheimildum landsins.

Auk þess telur Vestamannaeyjabær að bærinn hafi átt forkaupsrétt að útgerðarfélaginu. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestamannaeyjum, vildi ekki tjá sig um málið í samtali við Viðskiptablaðið umfram það sem þegar hefur komið fram í fjölmiðlum en hann hefur ítrekað mótmælt sölunni og gefið í skyn að hún stangist á við lög.