Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors mun kaupa eigin bréf fyrir fimm milljarða dala, andvirði um 690 milljarða króna, að því er segir í frétt BBC.

Um síðustu áramót átti GM 25,2 milljarða dala í reiðufé, en markmiðið nú er að halda reiðufjárstöðunni í 20 milljörðum dala.

Aðgerðafjárfestirinn Harry Wilson, sem fer fyrir hópi fjögurra vogunarsjóða, hafði hótað því að reyna að komast í stjórn félagsins og keyra þannig í gegn endurkaupaáætlunina, en í kjölfar yfirlýsingar GM hefur hann sagst ætla að hætta við framboðið. Wilson hafði upphaflega krafist endurkaupa fyrir átta milljarða dala, en segist sáttur við fimm milljarða.

Wilson hefur sakað stjórn GM um að sitja á of miklu lausu fé og skaða þar með hagsmuni hluthafa. Samkvæmt samkomulagi sem hann hefur gert við vogunarsjóðina fjóra þá fær hann 4% hlut í því fé sem sjóðirnir fá við endurkaup GM á hlutabréfum þeirra. Wilson hefur verið viðloðandi GM frá árinu 2009 þegar hann var hluti af teymi bandaríska ríkisins sem hafði það markmið að endurreisa GM eftir bankahrunið 2008.

Í kjölfar frétta af endurkaupaáætluninni hækkaði gengi bréfa GM um 1,68% og stendur það nú í 37,52 dölum.