*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 22. maí 2013 11:45

Ætla að láta vinna skýrslu um ESB

Næsti utanríkisráðherra mun líklega láta vinna úttekt um stöðu viðræðna við ESB.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ætlar að láta vinna úttekt á stöðu aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins (ESB) og því hvernig ESB hefur breyst síðan landið sótti um aðild að því. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist gera ráð fyrir því að utanríkisráðherra kynni úttektina á Alþingi. Að því loknu verði tekin ákvörðun um framhaldið, s.s. því hvenær boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort viðræðum verði haldið áfram. Ný ríkisstjórn ætlar að hætta aðildarviðræðum og taka umsóknarferlið ekki upp á ný nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sigmundur sagði á fundi með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, á Laugarvatni þar sem þeir hafa gert grein fyrir stjórnarsáttmála næstu ríkisstjórnar flokkanna, að Evrópusambandið hafi tekið breytingum frá því stjórnvöld sóttu um aðild að því. 

„Menn hljóta að taka inn í reikninginn aðstæður,“ sagði hann á fundinum.