Stjórnvöld í Portúgal ætla í apríl að ýta úr vör happdrætti sem á að vera þjóðinni til hagsældar og draga úr skattsvikum. Happdrættið er þannig úr garði gert að fólk á að geyma allar kvittanir og nótur sem það fær fyrir kaup á vörum og þjónustu. Á nótunum þurfa að vera persónugreinanlegar upplýsingar. Fyrir hverja nótu fá þeir sem taka þátt í happdrættinu miða. Fjöldi miða á að vera í samræmi við útgjöld viðkomandi. Miðarnir gilda svo sem happdrættismiðar hins opinbera.

Í umfjöllun netmiðilsins Euronews um málið segir að í vinning geti verið ýmsar fjárhæðir, jafnvel bílar.

Með happdrættinu er horft til þess að draga úr svartri atvinnustarfsemi og skattsvikum sem jókst verulega eftir að virðisaukaskattur var hækkaður upp í 23% nýverið. Undanskot eru nú talin nema allt að 25% af landsframleiðslu. Gangi allt eftir er reiknað með að portúgalska ríkið fái til baka 600 til 800 milljónir evra, jafnvirði rúmra 120 milljarða króna.