Afkoma Regins árið 2014 var bæði í takt við væntingar stjórnenda félagsins og greiningaraðila en rekstrartekjur námu 4.765 milljónum króna á árinu og þar af námu leigutekjur 4.237 milljónir en þær hafa hækkað um 20% frá árinu 2013. Að sögn Sveins Þórarinssonar hjá Hagfræðideild Landsbankans hefur félagið staðið sig nokkuð vel við að halda kostnaði lágum. „Reginn er kominn framar en hin fasteignafélögin þar sem það er nú þegar skráð á markaði. Þeir hafa verið í öflugum vexti, keypt Hörpureitinn, Klasasafnið og eignir frá Íslandsbanka. Maður skynjar það á stjórnendum þess að þeir ætli ekkert að sitja hjá og láta bara fasteignasafnið malla. Það virðist vera ákveðin dýnamík hjá félaginu. Þeir ætla sér að búa til eitthvað virði úr eignasafninu frá Íslandsbanka en hin fasteignafélögin eru ekki beint í því,“ segir Sveinn.

Samkeppnin mikil Sigurður Örn Karlsson hjá IFS Greiningu bætir því við að framundan ætti rekstur félagsins að vera í nokkuð stöðugum vexti en Reginn hefur endurnýjað marga samninga við núverandi leigutaka og því eru ekki margir samningar að losna á næstu mánuðum. „Það er enn mikið af lausu atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og því töluverð samkeppni um leigutaka. Flest þessi félög starfa þar og það er mjög mikið af ókláruðu atvinnuhúsnæði og því mikið framboð til staðar. Hættan framundan er samkeppnin um kúnnana, hvaða fyrirtæki býður upp á bestu lausnirnar. Það gæti verið áskorun hjá félögum að halda kúnnum,“ segir Sigurður.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Úr kauphöllinni sem fylgdi með Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .