Íslendingar ætla að opna ríflega 200 Domino's pizzastaði í Svíþjóð á næstu árum, að því er fram kemur í sænska fréttamiðlinum Nyheter24Malmö .

Fyrsti staðurinn opnar í Malmö, en í frétt sænska miðilsins er haft eftir Birgi Þór Bieltvedt, stjórnarformanni Pizza-Pizza ehf., sem rekur Domino's á Íslandi, að það sé alltaf erfitt að brjóta sér leið inn á nýja markaði. Hann hafi þó trú á því að sænskir neytendur muni verða ánægðir með verðlagningu á stöðunum.

Hann segist ekki hafa áhyggjur af því að fyrir er nokkur fjöldi pizzastaða í Svíþjóða. Engin stór keðja hafi haslað sér völl í landinu, heldur einkennist markaðurinn af mörgum litlum stöðum. Ekki er komið á hreint hvenær fyrsti staðurinn opnar í Malmo, en það verði þó ekki fyrr en í október í fyrsta lagi.

Pizza-Pizza ehf. á nú þegar 60% hlut í Pizza Pizza Norway, sem heldur utan um rekstur Domino's staðanna í Noregi.

Í frétt fasteignavefsins Fastighetsnytt kemur fram að Croisette Real Estate Partners hafi verið Domino's innan handar við val á stað til að hýsa fyrsta veitingastaðinn.