Greg Smith, fyrrum yfirmaður í afleiðuviðskiptum hjá Goldman Sachs, komst á allra varir þegar hann sagði upp hjá bankanum og reit síðan grein í New York Times þar sem hann fór heldur ófögrum orðum um Goldman Sachs, græðgina þar og framkomu við bankans viðskiptavini. Nú segir New York Times frá því að Smith eigi í viðræðum við nokkur bókaforlög vegna bókar sem hann hyggst skrifa um Goldman Sachs og veru sína þar. Samkvæmt heimildum blaðsins hafa útgefendur þó áhyggjur af mögulegum kostnaði vegna hugsanlegra lögsókna ákveði þeir að gefa bókina út. Eins efast sumir um að Greg Smith, sem ekki gegndi mikilvægri stjórnunarstöðu innan Goldman Sachs, geti veitt raunverulega innsýn í heim valdsins hjá Goldman Sachs.