Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segist hvorki hafa íhugað að segja af sér vegna Wintris-málsins svokallaða né heldur ætli hann sér að segja af sér. Þetta kemur fram í aukafréttatíma Stöðvar Tvö þar sem Sigmundur er í viðtali.

Ráðherrann segir að mikilvægast sé að ríkisstjórnin fái að klára sín störf, og að kjósendur fái að dæma hann fyrir gjörðir sínar í næstu Alþingiskosningum.

Auk þess segist hann skilja mjög vel að fólk sé reitt og að fólk geri þá kröfu til stjórnmálamanna að svör þeirra í viðtölum séu skýr og standist skoðun.

Sigmundur hefur sætt mikla gagnrýni vegna aflandsfyrirtækins Wintris inc. sem eiginkona hans, Anna Sigurlaug Pálsdóttir, var skráð fyrir í bresku jómfrúareyjum.