Antony Jenkins, sem nýverið tók við starfi bankastjóra breska bankans Barclays, ætlar að taka til hendinni og innleiða breytingar á starfsháttum kollega sinna í bankanum. Markmið bankastjórans er að hefja bankann á ný til vegs og virðingar í kjölfar brasks með millibankavexti. Það leiddi til þess að bæði bankastjóri og stjórnarformaður bankans fóru frá.

Breska ríkisútvarpið, BBC, segir Jenkins hins vegar ekki hafa í hyggju að skipta bankanum upp og selja rekstrareiningar frá honum á borð við fjárfestingarbankastarfsemi, sem hafi sætt harðri gagnrýni í kjölfar fjármálakreppu auk þess sem millibankabraskið átti sér stað innan þess hluta bankans.

Breska og bandarísk fjármálayfirvöld sektuðu Barclays um 290 milljónir punda, hátt í 60 milljarða króna, vegna málsins í júlí. Breska fjármálaeftirlitið, FSA, hefur haft fleiri þætti í rekstri bankans til rannsóknar, að sögn BBC. Þar á meðal eru viðskipti hans og félagsins Qatar Holding, fjárfestingarfélags emírsins í Katar og fjölskyldu hans, fyrir fjórum árum en bankastjórinn leitaði til Miðausturlanda eftir fjármagni til að bæta hag hans.