Langflestir innlánsreikningar í bankakerfinu skiluðu neikvæðri raunávöxtun á síðasta ári en verðbólgan var 3,5%. Vextir á útlánum bankanna hafa sömuleiðis lækkað. Á sama tíma skiluðu margir sjóðir verðbréfafyrirtækjanna góðri ávöxtun og sumir hverjir ævintýralegri. Sá sem var með hæstu raunávöxtunina var með 48,9% raunávöxtun og sá í öðru sæti með 45,6%. Þetta kemur fram í tímaritinu Fjármál og ávöxtun , sem var nú að koma út í fjórða skiptið.

fjármál og ávöxtun
fjármál og ávöxtun

Í ritinu er að finna heildaryfirlit yfir ávöxtun innlánsreikninga, sem og ávöxtun sjóða verðbréfafyrirtækjanna. Hið lága vaxtastig á Íslandi setur svip sinn á útkomuna, en stýrivextir Seðlabankans, hafa aldrei verið eins lágir. Þeir voru 3% í byrjun síðasta árs en lækkuðu svo skarpt á fyrri hluta ársins og síðasta haust voru þeir komnir í 0,75%.

„Eignir heimilanna eru að stærstum hluta bundnar í fasteignum og nema alls um 5.730 milljörðum króna á fasteignamati," segir í formála Jóns G. Haukssonar, ritstjóra tímaritsins. „Heimilin voru með 830 milljarða króna í bankainnstæðum og 560 milljarða króna í verðbréfum í lok ársins 2019; skv. skattskýrslum. Á sama tíma var bílafloti heimilanna metinn á 320 milljarða króna."