Það er mikil áhætta sem fylgir því að framleiða nýtt ilmvatn. Það getur verið ómögulegt að sjá fram á hvaða vara mun slá í gegn og því fylgir því mikil fjárhagsleg áhætta. Aðspurður segir Marc Puig, sem er yfir fjölskyldufyrirtæki Puig-fjölskyldunnar sem meðal annars framleiðir ilmi Paco Rabanne, Nina Ricci og Prada, að þetta sé líkast því að reka fyrirtæki í kvikmyndageiranum.

Fjallað er ítarlega um fjölskyldufyrirtækið í breska dagblaðinu Financial Times .

Síðastliðinn áratug hefur Puig gengið mjög vel. Hluti þess á ilmvatnsmarkaðnum jókst frá minna en 4 prósentum fyrir tíu árum upp í næstum 9 prósent og tekjur jókust næstum því um helming upp í 1,499 milljónir evra. Það sem hefur einna helst hjálpað fyrirtækinu hafa verið vel tímasettar fjárfestingar.

En grunnurinn að nýtilkominni velgengni Puig var þó lagður þegar fyrirtækið var nálægt því að verða gjaldþrota. Í lok 10. áratugarins var fyrirtækið farið að selja heila flóru af mismunandi vörum út um allan heim og var orðið skuldsett. Þá tók Marc Puig við sem forstjóri og skoðaði hvar fyrirtækið gæti sérhæft sig og staðið sig betur en önnur fyrirtæki á sama markaði.

Þessi nýji hugsunarháttur leiddi til mikilla breytinga innan fyrirtækisins sem ákvað að einbeita sér að hátísku fatnaði og ilmvötnum. Auk sinna eigin vörumerkja keypti Puig réttindi til þess að þróa ilmvötn fyrir Prada, Valentino og Comme des Garcons og keypti Jean Paul Gaultier hátískufatamerkið. Marc Puig og meðstjórnendur hans voru sannfærðir um það að stefnulausa stækkun fyrirtækisins áður fyrr hefði ekki einungis skapað fjárhagsvandamál heldur einnig minnkað ævintýramennsku fyrirtækisin sem hafði hætt að þora að taka áhættur.

Eitt þeirra fyrsta verk eftir breytingar var að þróa rakspírann Paco Rabanne 1 million sem hefur orðið að vinsælustu vöru Puig frá byrjun, en hann hefur selst í yfir 28 milljónum eintaka. Því virðist sem áhættan hafi borgað sig.

Fyrirtækið lítur björtum augum fram á veginn, hefur flutt í nýjan 100 metra háan turn í útjaðri Barcelona og Puig ætlar sér að ná 12 prósent markaðshluta í lok áratugarins og að verða þriðja stærsta fyrirtækið í bransanum (í augnablikinu er það í sjötta sæti).

Það merkilegasta við endurreisn Puig er að enn og aftur hefur fjölskyldumeðlimur tekið það hlutverk að sér. Yfir þrjár kynslóðir og þrátt fyrir krísuna fyrir 10 árum hefur Puig fjölskyldunni tekist að halda fyrirtækinu gangandi og að sitja í stjórn þess. Marc Puig segir að lykillinn að því að halda fjölskyldunni í stjórn er að minnka völd hennar. Það sitja til dæmis einungis tveir fjölskyldumeðlimir í tíu manna stjórn. Það var erfitt að leyfa mönnum sem ekki eru eigendur að stjórna fyrirtækinu, en Puig trúir því að hlutleysi þeirra sé mikilvægt fyrir farsæld hjá fyrirtækinu. Þó trúi Puig því að hann verði líklega síðasti fjölskyldumeðlimurinn til þess að stjórna fyrirtækinu og að næsta kynslóð verði kynslóð hluthafa en ekki stjórnenda.

Puig telur að það sé mjög erfitt að blanda saman fjölskyldu og fyrirtæki. Það getur þó tekist ágætlega með því að minnka völd fjölskyldunnar og að passa að allir standi frammi fyrir sömu fjölskyldu og fyrirtækja gildum. Puig vill meina að til að leyfa næstu kynslóð að reka fyrirtæki verði að kenna þeim sömu lexíur og gildi og fyrirtækið vinnur samkvæmt.