Magnús Scheving vekur aðdáun á ólíklegustu stöðum. Á forsíðu Alþjóðlega fimleikasambandsins (FIG) er í dag fjallað um helstu afrek Magnúsar undir fyrirsögninni „Ævintýri Íþróttaálfsins – sönn saga af velgengni“ (e. The adventures of Sportacus – Genuine success story).

Í fréttinni er Magnús rómaður sem hæfileikaríkur íþróttamaður sem síðan hafi náð góðum frama í atvinnulífinu. Hann er því sagður hvatning fyrir íþróttamenn sem eru við það að ljúka ferli sínum og áminning um að hægt er að nýta kunnáttu úr íþróttaheiminum til verðugra verkefna. Latibær, sem flestir þekkja vel, hvetur börn til að borða hollan mat og hreyfa sig.

Magnús keppti á sínum tíma í þolfimi og vann meðal annars tvenn Evrópumeistaraverðlaun í íþróttinni árin 1994 og 1995. Þó hann hafi hætt að keppa hélt hann svo sannarlega áfram að hreyfa sig en í dag er hann 48 ára og leikur Íþróttaálfinn enn af mikilli leikni. Það er því ekki furða að fimleikafólkið veiti honum athygli enda hikar hann ekki við að leika sínar ýmsu listir sem þorri ungra Íslendinga þekkir svo vel.