*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 28. febrúar 2021 13:55

„Af hverju er skipt við Siemens?“

Alls hefur borgin undanfarin ár greitt Smith og Norland tæplega 275 milljónir króna vegna samninga, marga hverja án útboðs.

Jóhann Óli Eiðsson
Eyþór Árnason

Sé viðskiptasaga Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar við Smith og Norland skoðuð – Viðskiptablaðið hefur afrit af reikningum, tímaskýrslum og ýmsum skeytasendingum undir höndum – sést að hún teygir sig alllangt aftur. Árið 2014 var til að mynda ákveðið að gera tilraunir með forgangskerfi strætisvagna og neyðarbíla, svokallað STREAM kerfi. Var við það gengið til samninga við Smith og Norland án undangengins útboðs.

„Unnt væri að kaupa gangbrautaljósabúnað frá öðrum framleiðanda en hætta er á að samkvæmni ljósanna tapist og eins verður viðhald flóknara og erfiðara m.t.t. varahlutakaupa og tækniþjónustu vegna okkar litla markaðar,“ segir í minnisblaði skrifstofustjóra skrifstofu framkvæmda og viðhalds borgarinnar sem unnið var að beiðni innkauparáðs haustið 2013. Ráðið hafði velt þeirri spurningu upp hvort unnt væri að kaupa búnað frá öðrum aðilum.

„Af hverju er skipt við Siemens? Eftir útboð 2005 var keypt stjórntölva fyrir umferðarljós afSiemens sem var lægstbjóðandi. […] 2013 komu upp hugmyndir að nýta þessa fjárfestingu sem best og virkja forgangskerfi (STREAM) sem tengist stjórntölvunni. Eingöngu þarf að bæta Streamserver í umferðarreikninn. Þegar slíkur búnaður er settur upp er öruggast að tæknin sé frá sama framleiðanda en þá eru minnstar líkur á vandamálum og ófyrirséðum kostnaði,“ segir í minnisblaði frá verkfræðistofu að nafni Vinnustofan Þverá um svipað leyti.

„Aflað hefur verið upplýsinga um aðferðir og búnað erlendis, einkum frá Siemens, þar sem stjórnbúnaður umferðarljósa og umferðarreiknir í borginni er frá því fyrirtæki og mestar líkur á að búnaður frá sama aðila verði samhæfður,“ segir í öðru minnisblaði frá sömu stofu. Margir samninga borgarinnar eru merktir þannig að þeir byggi á gögnum frá Þverá eða að Þverá hafi beðið um samninginn. Þverá hætti að mestu starfsemi í árslok 2017 og færði starfsmaður stofunnar sig þá til borgarinnar.

Umræddur samningur kostaði 42 milljónir króna með virðisaukaskatti og skiptist til helminga milli borgar og Vegagerðarinnar. Síðan þá hafa ýmis afleidd verkefni honum tengt komið upp og hann alls kostað tæplega 161 milljón króna. Verkefnið var ekki boðið út þrátt fyrir að upphæðirnar, þegar borgin og Vegagerðin eru metin sem einn aðili, hafi verið yfir viðmiðunarfjárhæðum þess tíma. Alls hefur borgin undanfarin ár greitt Smith og Norland tæplega 275 milljónir króna vegna samninga sem tengjast umferðarljósum. Vegagerðin hefur greitt tæplega 311 milljónir króna en inni í þeirri tölu eru umferðarljós utan höfuðborgarsvæðisins.

Þá eru ótaldir reikningar vegna útkalla þegar umferðarljós haga sér ekki eins og þau eiga að gera eða vegna varahluta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér