Sérstaklega vekur athygli að málarekstri og kærum Seðlabanka og þar áður FME vegna meintra brota á höftunum hefur nánast að öllu leyti verið hafnað af dómstólum eða saksóknurum,“ segir í greinargerð bankaráðs Seðlabankans til forsætisráðherra um gjaldeyriseftirlit Seðlabankans og Samherjamálið svokallaða.

Stjórnvaldssektum sem bankinn hefur lagt á hafi í mörgum tilfellum verið hnekkt af dómstólum þegar á þær hefur verið látið reyna. Í greinargerðinni er einnig bent á að þeir sem borið hafi kostnað eða tjón vegna mistaka í stjórnsýslu Seðlabankans kunna að eiga rétt á skaðabótum frá Seðlabankanum.

Bankaráðið segir það Seðlabankanum til varnar að byggja hafi þurft upp regluverk með hraði og þekking á framkvæmd regluverks gjaldeyrishafta hafi skort. Seðlabankinn hafi því verið settur í erfitt hlutverk. Þá hafi að gjaldeyrishöftin að mörgu leyti heppnast vel frá efnahagslegu sjónarmiði. Til að koma í veg fyrir að sömu mistök verði endurtekin þurfi Seðlabankinn að hafa til taks aðgerðaráætlun þurfi að koma á fjármagnshöftum á ný í framtíðinni.

Þá er varað við því að sömu einstaklingar beri ábyrgð á rannsóknum og eftirliti annars vegar og hins vegar peningastefnu bankans. Bent er á að sambærileg staða komi upp verði af sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.„Reynslan vegna vinnu Seðlabankans við eftirlit með fjármagnshöftunum bendir eindregið til þess að því geti fylgt verulegir ókostir.“

Í bókun Þórunnar Guðmundsdóttur og Sigurðar Kára Kristjánssonar bankaráðsmanna segir að ekki verði séð að Hæstaréttur og Umboðsmanns Alþingis hafi tekið undir sjónarmið Seðlabankans um lögmæti ákvarðana við framkvæmd gjaldeyriseftirlits. Þvert á móti feli fyrirliggjandi niðurstöður í sér þungan áfellisdóm yfir stjórnsýslu bankans og meðferð hans á opinberu valdi.

„Af fyrirliggjandi dómum Hæstaréttar verða ekki dregnar aðrar ályktanir en þær að ákvarðanir Seðlabanka íslands við framkvæmd gjaldeyriseftirlits hafi verið ólögmætar heilt yfir,“ segir í bókun þeirra. Þá beri viðbrögð Seðlabankans í málinu ekki þess merki að stjórnendur bankans taki til sín „þá alvarlegu gagnrýni á starfsemi og stjórnsýslu bankans sem þar kom fram.“

Frosti Sigurjónsson, nefndarmaður í bankaráði Seðlabankans, telur óheppilegt hve mikið vald seðlabankastjóri hafi. „Alveg óháð því hversu vel tekst til með val á bankastjóra Seðlabankans og þótt eftirlit bankaráðs verði gert mun virkara getur samt ekki talist heppilegt að fela einum einstaklingi svo mikla ábyrgð og svo mikið vald í málefnum landsins,“ segir Frosti.

Á vef stjórnarráðsins segir að forsætisráðuneytið muni fara yfir greinargerðina á næstu vikum og leggja mat á hvort tilefni sé til að óska eftir frekari skýringum eða gögnum frá bankanum. Þá verði greinargerðin höfð til hliðsjónar við yfirstandandi vinnu við endurskoðun laga um Seðlabankann og fyrirhugaða sameiningu bankans við Fjármálaeftirlitið.