Afgangur af vöruskiptum við útlönd nam 9,3 milljörðum króna í mars. Þetta er 4,2 milljörðum króna meira en á sama tíma í fyrra, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar . Miðað við þetta nam afgangur af vöruskiptum á fyrstu þremur mánuðum ársins 25,6 milljörðum króna. Til samanburðar nam hann 18,2 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 7,5 milljörðum krónum betri í ár en í fyrra.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að í mars voru fluttar út vörur fyrir 50,9 milljarða króna og inn fyrir 41,6 milljarða króna. Á fyrstu þremur mánuðum ársins voru fluttar út vörur fyrir tæpa 156,3 milljarða króna en inn fyrir 130,6 milljarðaVöruskiptajöfnuðurinn var því 7,5 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma árið áður.

Á fyrsta ársfjórðungi var verðmæti vöruinnflutnings 8 milljörðum eða 5,8% minna en í fyrra. Það skýrist aðallega af minni innflutningi á skipum og flugvélum. Einnig minnkaði innflutningur á  hrá- og rekstrarvörum. Á móti kom aukinn innflutningur fjárfestingavara og mat og drykkjarvara.