Íslenska fyrirtækið Arctic Trucks hefur afhent norsku lögreglunni ellefu brynvarða Toyota Land Cruiser-jeppa. Fyrirtækið sérhæfir sig í því að breyta Toyota bifreiðum.

Herjólfur Guðbjartsson, framkvæmdastjóri viðskipta- og þróunarsviðs hjá Arctic Trucks, segir í samtali við Fréttablaðið að með þessu eigi lögreglan aðild að rammasamningi milli norska hersins og Arctic Trucks.

Verðmæti þess rammasamnings nemur því sem samsvarar hátt í fimm milljörðum íslenskra króna og felur í sér að 200 til 300 bílum verður breytt fyrir herinn næstu tvö til þrjú ár.

Herjólfur segir að sérsveit norsku lögreglunnar muni nota þessa bíla í öllum umdæmum í Noregi.