Tekjur Alcoa, móðurfélags Alcoa á Íslandi, jukust um 15% á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Félagið birti árshlutauppgjör 3. ársfjórðungs eftir lokun markaðar í gær.

Afkoma Alcoa var mun betri en markaðsaðilar höfðu spáð, en fréttastofa Bloomberg sagði frá því í gær að spáð væri 29% samdrætti í hagnaði.

Talið er að eftirspurn eftir áli muni aukast enn frekar en gert var ráð fyrir á þessu ári. Aukning eftirspurnar er sérstaklega í löndum á borð við Kína, Brasilíu, Indland og Rússland. Samkvæmt frétt Reuters höfðu auknar væntingar um eftirspurn eftir áli nokkur áhrif á hlutabréfaverð félagsins.

Hlutabréf Alcoa hækkuðu um 3% á eftirmarkaði í gærkvöldi.