Hlutabréf lækkuðu í verði við opnun hlutabréfamarkaða í Evrópu og á Wall Street í New York í dag í kjölfar þess að reikningar Alcoa sýndi lakari árangur á fjórða ársfjórðungi 2009 en búist hafði verið við. Þá hefur hert peningamálastefna Kínverja einnig haft neikvæð áhrif á hlutabréfamarkaðinn.

Ástæða á lakari afkomu Alcoa er einkum hækkandi orkuverð og lækkun á verðmæti dollars gagnvart evru og brasilískum real. Nettó tap á fjórða ársfjórðungi var 277 milljónir dollara eða 0,28 cent á hlut.

„Þetta var erfitt ár fyrir áliðnaðinn,” sagði Klaus Kleinfeld forstjóri Alcoa á vefsíðu Alcoa. Sagði hann að endurskipulagning á kostnaðarþáttum ætti eftir að verða fyrirtækinu til góða til lengri tíma litið. Hann segist þó búast við áframhaldandi mótvindi vegna hækkandi orkuverðs og gjaldeyriskostnaðar.

Mikill samdráttur varð í tekjum á milli ára og allt árið 2009 voru tekjur samsteypunnar 18,4 milljarðar dollara samanborið við 26,9 milljarða dollara á árinu 2008. Nettótapið á árinu 2009 í heild var upp á 1,15 milljarða dollara samanborið við 74 milljóna dollara nettótap á árinu 2008.

Afkoma Alcoa hefur oft verið einskonar viðmiðun á markaðnum og hefur því talsverð áhrif. Þá var Alcoa fyrst fyrirtækja sem skráð eru í iðnaðarvísitölu Dow Jones til að birta afkomutölur fjórða ársfjórðungs. Lækkaði vísitalan í fyrstu viðskiptum í morgun um 0,56%. S&P 500 vísitalan fór niður um 0,73% og Nasdaq um 0,86%.

Þá lækkaði FTSE 100 hlutabréfavísitalan í London um 1,1% vegna slakra tíðinda af árangri Alcoa og DAX í Frankfurt féll einnig um 1,1% og CAC-40 í Frakklandi lækkaði um 1%.