Hagnaður Arion banka á árinu 2014 nam 28,7 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 12,7 milljarða króna á árinu 2013. Arðsemi eigin fjár var 18,6% samanborið við 9,2% árið 2013. Heildareignir námu 933,7 milljörðum króna samanborið við 938,9 milljarða króna í árslok 2013. Eiginfjárhlutfall bankans í árslok 2014 var 26,3% en var 23,6% í árslok 2013 og hlutfall eiginfjárþáttar A nam 21,8% samanborið við 19,2% í lok árs 2013. Kemur þetta fram í tilkynningu til kauphallarinnar.

Hreinar vaxtatekjur námu 24,2 milljörðum samanborið við 23,8 milljarða króna árið 2013. Hreinar þóknanatekjur námu 13,3 milljörðum króna í fyrra samanborið við 11,2 milljarða árið 2013. Rekstrartekjur hækka á milli ára og námu 54,0 milljörðum í fyrra, en voru 44,3 milljarðar árið 2013. Hrein virðisbreyting er jákvæð á árinu og nemur 2,1 milljarði samanborið við 0,7 milljarða gjaldfærslu árið 2013. Kostnaðarhlutfall var 50,1% en var 57,3% árið 2013.

Í tilkynningu er haft eftir Höskuldi Ólafssyni bankastjóra að regluleg starfsemi bankans hafi gengið vel og afkoma hafi verið umfram væntingar á öllum helstu tekjusviðum. Óreglulegir liðir höfðu einnig jákvæð áhrif á afkomuna og þá fyrst og fremst sala á hlut í HB Granda og skráning félagsins á aðalmarkað kauphallar, en einnig höfðu jákvæðar virðisbreytingar áhrif.

Hann segist hafa gert ráð fyrir því á undanförnum árum að vaxtamunur bankans myndi lækka, sem hann hafi gert um 0,6 prósentustig, úr 3,4% í 2,8%, á tveggja ára tímabili. Því hafi verið lagt áherslu á að auka þóknanatekjur á öllum sviðum bankans. Það hafi tekist og jukust þóknanatekjur um tæp 19% á árinu, einkum í erlendum greiðslukortum og fjárfestingabankastarfsemi. Þá segir hann að áhrifa óreglulegra liða muni gæta í minna mæli á næstu misserum enda góður stöðugleiki í rekstri bankans og úrvinnsluverkefnum sem tengjast hruninu fækki ár frá ári.