Afkoma Byggðastofnunar var jákvæð um 113,4 milljónir króna, sem er aukning um 13,8% frá fyrra ári þegar afkoman var jákvæð um 99,6 milljónir króna. Aðalsteinn Þorsteinsson er forstjóri stofnunanarinnar.

Eiginfjárhlutfall samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki var 21,45% en skal að lágmarki vera 8% auk 1,25% sveiflujöfnunarauka og 1,75% verndunarauka, eða samtals 11,0% til 31. desember. Þann 1. janúar 2019 hækkaði verndunarauki í 2,5% þannig að samanlögð krafa um eiginfjárauka er 11,75% frá 1. janúar 2019.

Hreinar vaxtatekjur voru 467,8 milljónir króna eða 42,6% af vaxtatekjum, samanborið við 426,3 milljónir króna (49,9% af vaxtatekjum) hreinar vaxtatekjur árið 2017. Laun og annar rekstrarkostnaður nam 520,1 milljónum króna samanborið við 446,3 milljónir árið 2017.

Eignir námu 14.886 milljónum króna og hafa hækkað um 1.753 milljónir frá árslokum 2017. Þar af voru útlán og fullnustueignir 12.461 milljónir samanborið við 10.804 milljónir í árslok 2017. Skuldir námu 11.766 milljónum króna og hækkuðu um 1.640 milljónir á árinu.

Eiginfjárstaða stofnunarinnar er sögð íáfram sterk í fréttatilkynningu og gefa henni færi á að vera öflugur bakhjarl atvinnulífs á landsbyggðinni. Hlutverk Byggðastofnunar er að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu.

Í samræmi við hlutverk sitt undirbýr, skipuleggur og fjármagnar stofnunin verkefni og veitir lán með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Fjármögnun verkefna skal eftir föngum vera í samstarfi við aðra. Stofnunin skipuleggur og vinnur að atvinnuráðgjöf í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra haghafa.

Byggðastofnun fylgist með þróun byggðar í landinu, m.a. með gagnasöfnun og rannsóknum. Stofnunin getur gert eða látið gera áætlanir um þróun byggðar og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins.