Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssambands sauðfjárbænda segir að kjötmarkaðurinn í heild beri keim af því að innflutningur á nánast öllu öðru kjöti en kindakjöti af hafi vaxið stórlega. Þetta var á meðal þess sem kom fram í setningarræðu hans á aðalfundi samtakanna, sem hófst í morgun.

„Afkoman í sauðfjárræktinni hefur sjaldnast verið nægilega góð, enda eru okkar afurðir verðlagðar í samhengi við annað kjöt, sem er og verður ódýrara að framleiða," sagði Þórarinn Ingi. „Það þýðir að lambakjöt hér á Íslandi er mun ódýrara en lambakjöt er yfirleitt.  Erlendis er það oftast talsvert dýrara en hvíta kjötið en þannig er það ekki hérlendis.  En það verður líka að taka tillit til þess að lambakjöt er hvergi með 27% markaðshlutdeild á kjötmarkaði eins og hér á Íslandi.  Það skiptir máli að hafa svona sterka stöðu á markaði hér innanlands, en það kemur fram verðlagningunni. Með hagræðingu í sláturiðnaði og ágætum árangri í útflutningi höfum við sauðfjárbændur fengið mun meiri hækkanir á afurðaverði til okkar en komið hafa fram í smásöluverði.  Þar munar tugum prósenta.  Það þýðir hins vegar ekki að það sé nóg til að bæta afkomuna verulega, því rekstrarkostnaðurinn hefur hækkað stórum eins og við þekkjum öll vel."

Formaðurinn sagði að innanlandsmarkaður fyrir kjöt hefði lítið breyst síðustu tvö árin.

„Kjötmarkaðurinn í heild ber nokkurn keim af því að innflutningur á nánast öllu öðru kjöti en kindakjöti hefur vaxið stórlega, einkanlega nautakjöti en þess gætir líka í svína- og alifuglakjöti.   Enginn innflutningur hefur verið á kindakjöti, þrátt fyrir að hann sé heimill og tollkvótum fyrir kindakjöt hafi verið úthlutað, án þess að nokkur þyrfti að borga fyrir þá.  Verðið erlendis er einfaldlega ekki samkeppnisfært við verðið hér heima.  Hinsvegar hefur innflutningur á erlendu kjöti auðvitað áhrif á okkar framleiðslu þó þar sé ekki um kindakjöt að ræða. Það sést best á því að smásöluverð lambakjöts lækkaði um 2,1% á árinu 2014. Það jafngildir 4% lækkun raunverðs þar sem að ársverðbólgan var 1,9%."

Kynna lambakjöt fyrir ferðamönnum

„Nokkrar áhyggjur hafa verið uppi um að lambakjöt nái ekki nægilega vel til sívaxandi fjölda ferðamanna," sagði Þórarinn Ingi. „ Erfitt er að mæla neyslu ferðamanna á einstökum vörutegundum en skv. könnunum er meðallengd dvalar ferðamanna hér 10 dagar og miðað við ferðamannafjöldann árið 2014 jafngildir það því að um 27 þúsund fleiri íbúar byggju hér allt árið.  Meðaleyðsla í veitingaþjónustu samkvæmt sömu könnunum er ríflega 50 þúsund krónur og um 25 þúsund krónur í viðbót í almennum matvöruverslunum.  Fyrir liggur að við þurfum að sækja þar fram, bæði til að kynna lambið fyrir ferðamönnum á meðan heimsókn þeirra stendur, en ekki síður að búa til eftirspurn eftir því í heimalandinu."

Ræðu formannsins í heild má lesa hér .