Árshlutareikningur Íbúðalánasjóðs fyrir fyrri hluta ársins 2017 var staðfestur af stjórn sjóðsins í dag. Rekstrarniðurstaða tímabilsins var jákvæð sem nemur 614 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall sjóðsins er nú 7,8% en langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir 5,0%. Eigið fé Íbúðalánasjóðs í lok tímabilsins er 24.142 milljónir króna en var 23.528 milljónir króna þann 31. janúar 2016. Heildareignir sjóðsins nema 777.323 milljörðum og heildarskuldir nema 753.182 milljörðum.

Hreinar vaxtatekjur á fyrri helmingi ársins voru 532 milljónir króna en námu 525 milljónum á sama tímabili í fyrra. Rekstrarkostnaður tímabilsins var 843 milljónir króna og lækkar hann um 7% á tímabilinu. Launakostnaður lækkar um 22% og stöðugildum fækkar úr 85 á fyrri helmingi ársins 2016.Sjóðurinn hefur tekið við nýjum verkefnum á sviði húsnæðismála og ráðið til þeirra verkefna starfsmenn. Annar rekstrarkostnaður hækkar um 12,8%, fyrst og fremst vegna greiðslna til embættis umboðsmanns skuldara. Íbúðalánasjóður greiðir á tímabilinu 184 millj. kr. til reksturs annarra ríkisstofnana eða sem nemur 22% af öðrum rekstrarkostnaði sjóðsins.

Afkoma sjóðsins af sölu fullnustueigna var jákvæð á árinu og  skilaði 370 milljónum króna umfram bókfært virði eignanna. Bætt gæði lánasafns höfðu þau áhrif að virðisaukning útlána nam 340 milljónum á tímabilinu. Áhrif einskiptisliða minnkar verulega á milli ára.

Í lok tímabilsins voru útlán sjóðsins 544 milljarðar króna og höfðu útlán dregist saman um 34 milljarða króna frá áramótum. Skýrist minnkun lánasafnsins af uppgreiðslum, afskriftum og ráðstöfun séreignarsparnaðar. Uppgreiðslur frá viðskiptavinum skýrast að stórum hluta af aukinni sókn lífeyrissjóða inn á lánamarkaðinn. Ekki hefur verið þörf fyrir útgáfu fjármögnunarskuldabréfa á tímabilinu.

Útlán í vanskilum nema nú 2,4% af heildarlánum en voru 4,8% á sama tíma árið 2016. „Góðar efnahagsaðstæður og skilvirkir innheimtuferlar hafa minnkað áhættu vegna lánasafnsins. Uppreiknaðar eftirstöðvar allra útlána sjóðsins í vanskilum voru 13.600 millj. kr., þar af voru vanskil 2.854 millj. kr. Á afskriftareikningi útlána voru 6.740 millj. kr. í lok tímabilsins og dróst  afskriftareikningur saman um 740 millj. kr. frá áramótum. Um 98,6% af bókfærðu virði lánasafns Íbúðalánasjóðs liggur á veðbili innan við 90% af fasteignamati við lok tímabilsins. Fasteignaverð hefur hækkað umfram verðlag á tímabilinu og vanskil minnkað umtalsvert sem bætt hefur tryggingarstöðu lánasafnsins,“ segir í tilkynningunni.

Afkoma í takt við væntingar

Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs segir: „Afkoma sjóðsins á fyrri hluta ársins er í takti við væntingar og við sjáum til að mynda í lægri launakostnaði árangur þeirra aðhaldsaðgerða sem gripið hefur verið til hjá sjóðnum. Um leið er jákvætt að sjá hversu vel hefur gengið að innleiða ný hlutverk sjóðsins en hann gegnir nú mikilvægu hlutverki í að bregðast við stöðunni á húsnæðismarkaði. Innleiðing húsnæðisáætlana hjá sveitarfélögum, veiting stofnframlaga til byggingar hagkvæmra leiguíbúða, greiningarvinna hagdeildar ásamt aukinni upplýsingagjöf til almennings eru á meðal margra nýrra verkefna sjóðsins. Brýnt er að vel takist til við stjórnun húsnæðismála á næstu misserum. Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til og falið Íbúðalánasjóði að sinna eru óðum að komast til framkvæmda og það styttist í að við sjáum áhrifin koma fram í auknu framboði hagkvæms húsnæðis og fleiri stuðningsúrræðum fyrir verst settu hópana á húsnæðismarkaði.“