Kvika banki áætlar að afkoma félagsins á þessu ári verði umfram áður tilkynnta afkomuspá. Samkvæmt frumdögum að uppgjöri fyrstu sex mánaða ársins er ráðgert að hagnaður samstæðunnar hafi verið 1,62 til 1,67 milljarðar króna fyrir skatta.

Kvika birti uppfærða afkomuspá í maí þar sem gert var ráð fyrir 2,7 milljarða hagnaði fyrir skatta á þessu ári. Sú afkomuspá var 36% hærri en upphafleg afkomuspá fyrir árið sem gerði ráð fyrir 1,99 milljarða króna hagnaði á árinu 2019. Bankinn gerir því ráð fyrir að hagnaður ársins verði umfram 2,7 milljarða króna.

Í tilkynningu frá Kviku segir að markaðsaðstæður hafi verið góðar á öðrum ársfjórðungi sem hafi haft jákvæð áhrif víða í rekstrinum. Meðal annars hafi niðurfærslur verið undir áætlun og afkoma af eignastýringu innan samstæðunnar verið nokkuð umfram áætlun. Bankinn hyggst birta uppfærða afkomuspá um leið og hún liggur fyrir.