Afkoma MP banka á fyrstu sex mánuðum ársins var neikvæð um 159 milljónir króna eftir skatta. Er það þó verulega bætt afkoma miðað við seinni hluta árs 2013 þegar tap bankans nam tæpum milljarði króna.

Eigið fé bankans í lok júní 2014 nam 4.847 milljónum króna. Eiginfjárhlutfallið hefur styrkst á fyrstu sex mánuðum ársins og var 15,1% í lok júní samanborið við 14,2% í árslok 2013.

Fram kemur í tilkynningu að lausafjárstaða bankans sé traust og nam lausafjárþekja 139%. Lausafjárþekja í gjaldmiðlum var 272%. Lágmarkshlutföll eri 70% í krónum og 100% í gjaldmiðlum. Þá hefur rekstrarkostnaður bankans lækkað verulega og er um 200 milljónum króna lægri en í lok síðasta árs.

Hreinar vaxtatekjur námu 674 milljónum króna og drógust saman um 12% miðað við seinni hluta árs 2013 að teknu tilliti til vaxtaleiðréttingar. Ástæðan er minnkun útlánasafns. Vaxtamunur, reiknaður sem hlutfall af meðalstöðu heildareigna í upphafi og lok uppgjörstímabilsins var 2,4% sem er 0,2 prósentustigum lægra en á sama tímabili í fyrra. Útlán til viðskiptavina námu rúmum 23 milljörðum króna. Hlutfall 90 daga vanskila af útlánum í lok tímabils að teknu tilliti til sértækrar niðurfærslu nam 2,2%. Hlutfall áhættuveginna eigna af heildareignum var um 49% í lok tímabils.

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, segir að í raun megi skipta uppgjörinu, og starfsemi bankans á tímabilinu, í tvennt. „Fyrri áætlunum sem miðuðu við aðgang að vaxtarfjármagni þurfti nauðsynlega að breyta þegar þær forsendur stóðust ekki. Það kom harðast niður á bankastarfseminni sem krefst mests eigin fjár. Þess vegna þurfti að stokka spilin uppá nýtt og endurskipuleggja rekstur. Verulegur árangur náðist í þeirri endurskipulagningu þótt þar sé um krefjandi aðgerðir að ræða eins og fækkun stöðugilda um 30% ber vitni um. Salan á Lykli var hluti af þeirri endurskipulagningu, en hún gekk mjög vel fyrir sig. Kostnaður við hagræðingu nemur um 100 milljónum króna á fyrri hluta ársins. Kostnaðargrunnur bankans hefur hins vegar verið lækkaður verulega og mun það koma fram í bættri grunnafkomu eftirleiðis.“

„Hinn þátturinn er eignastýringin og starfsemi okkar á verðbréfamörkuðum. Hagræðingaraðgerðir eru takmarkaðar á þeim sviðum og gaman að sjá mjög góðar og vaxandi þóknanatekjur af þeirri starfsemi. Verðþróun á innlendum verðbréfamörkuðum á fyrri hluta ársins hefur auðvitað ákveðin neikvæð áhrif en á móti kemur að frábær árangur hefur náðst á ákveðnum sviðum svo sem í fyrirtækjaráðgjöf og í stýringu innlendra hlutabréfa,“ segir Sigurður Atli.