*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 15. maí 2019 16:56

Afkoma Sýnar batnar

Starfslok stjórnenda kosta Sýn 137 milljónir króna en búið er að skipta um fjóra af fimm framkvæmdastjórum félagsins.

Ritstjórn
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar.
Eva Björk Ægisdóttir

Hagnaður Sýnar jókst úr 51 milljón króna í 670 milljónir króna milli ára á fyrstu þremur mánuðum ársins. Breytingin skýrist fyrst og fremst af 817 milljón króna söluhagnaði sem varð til við samruna Hey, dótturfélags Sýnar, í Færeyjum og Nema, dótturfélag Tjaldurs. Sýn mun eiga 49,9% hlut í nýju sameinuðu félagi færður samkvæmt í hlutdeildaraðferð og því ekki hluti af samstæðureikningsskilum Sýnar.

Sé horft á grunnrekstur félagsins eru breytingarnar minni. Tekjur á fyrsta ársfjórðungi jukust um 1% og námu tæpum 5 milljörðum króna. EBITDA hagnaður nam 1,26 milljörðum króna og hækkar um 5% milli ára. 

Þá segir jafnframt að kostnaður vegna starfsloka stjórnenda hafi numið 137 milljónum króna á ársfjórðungnum en búið er að skipta um fjóra af fimm framkvæmdastjórum félagsins. „Þeir sem koma núna inn í framkvæmdastjórn hafa unnið áður sem ráðgjafar fyrir félagið og þekkja það vel sem gerir það að verkum að þeir þurfa ekki tíma til aðlögunar. Ég tel félagið einstaklega heppið með samsetningu hinnar nýju framkvæmdastjórnar og hlakka til að taka slaginn á markaði með þessum úrvalshópi. Félagið mun klára stefnumótun og skerpa á rekstrinum strax í júní. Við ætlum að veita viðskiptavinum okkur úrvals þjónustu og vera í fararbroddi með nýjungar, Vegna árstíðasveiflu í rekstri verða næstu fjórðungar ársins betri. Við erum enn vissari um að horfur ársins náist og horfum björtum augum fram á við,“ segir Heiðar Guðjónsson, sem tók við sem forstjóri Sýnar af Stefáni Sigurðssyni fyrri á þessu ári.

Síðustu uppgjör félagsins höfðu valdið vonbrigðum en hlutabréfaverð Sýnar hefur fallið um 49% undanfarið ár. Í uppgjörinu kemur fram að afkomuspá ársins væri óbreytt, þar sem gert væri ráð fyrir 6 til 6,5 milljarða króna EBITDA á árinu og heildarfjárfestingum upp á 3,8 til 4,2 milljarða króna.