Aflabrestur í loðnu í vetur hefur umtalsverð áhrif á rekstur olíufélaganna N1, Skeljungs og Olís sem selja útgerðunum olíu. Fyrstnefnda félagið er hið eina sem skráð er í Kauphöll Íslands og þar með eina fyrirtækið sem birtir uppgjör ársfjórðungslega. Uppgjör fyrir fyrsta fjórðung var birt í síðustu viku. Þar kemur fram að heildartap eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi nam 86 milljónum króna en hagnaður á sama tímabili í fyrra var 22 milljónir króna. Rekstrartekjur voru 11.325 milljónir króna samanborið við 12.783 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2013.

Í afkomutilkynningu segir að rekstur félagsins hafi verið undir áætlun á fyrsta ársfjórðungi sem skýrist að mestu vegna minni umsvifa í sjávarútvegi og á einstaklingsmarkaði.

„Selt magn af eldsneyti til sjávarútvegs var 14,5% minna en á fyrsta ársfjórðungi 2013 sem má að stærstum hluta rekja til lakari loðnuvertíðar,“ segir í afkomutilkynningunni. Samkvæmt upplýsingum frá LÍÚ veiddu íslensk skip 111 þúsund tonn af loðnu á veiðitímabilinu sem stóð yfir þangað til í lok mars síðastliðins. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni veiddust 454 þúsund tonn í fyrra og árið þar áður veiddust 583 þúsund tonn. Samdráttur í veiðum er því verulegur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .