Aflandskrónueigendur hafa á síðasta ári tvöfaldað eign sína á skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði. Í lok október 2011 nam eign þeirra í íbúðabréfum tæplega 60 milljörðum króna en var í upphafi ársins um 30 milljarðar.

Á sama tíma og aukning var í íbúðabréfum lækkaði aflandskrónustabbinn um 22 milljarða króna. Það er lægri upphæð en fór út í tveimur gjaldeyrisútboðum Seðlabankans, þar sem hann keypti aflandskrónur fyrir erlendan gjaldeyri.

Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur í greiningu Íslandsbanka, segir líklegustu skýringuna á vaxandi áhuga erlendra aðila á íbúðabréfum vera þá útgönguleið sem bréfin bjóða upp á. Erlendum aðilum er heimilt að skipta vaxta- og höfuðstólsgreiðslum í erlendan gjaldeyri og komast þannig út um höftin.

Áhuginn hefur sést vel í ávöxtunarkröfunni á stysta flokki íbúðabréfa, HFF14. Frá síðari hluta árs 2010 hefur ávöxtunarkrafan lækkað hratt og hefur verið neikvæð um nokkurt skeið. Viðskipti með flokkinn í dag eru lítil sem engin en talið er að eign erlendra aðila nemi um 80-90%, af um 24 milljarða stærð flokksins.

Jón Bjarki segir að áhuginn á næststysta flokknum, HFF24, virðist nú fara vaxandi. Flokkurinn sé þó mun stærri að sniðum og þoli því betur áhuga erlendu aðilanna, án þess að snörp breyting verði á ávöxtunarkröfunni og verði bréfanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan.

Már Guðmundsson - Seðlabankastjóri
Már Guðmundsson - Seðlabankastjóri
© BIG (VB MYND/BIG)

Már Guðmundsson og samstarfsfólk hans í Seðlabankanum vinna eftir áætlun um afnám hafta frá því í mars. Í desember kynnti Viðskiptaráð aðra áætlun, sem sýnir að aflandskrónustabbinn lækkaði frá janúar til loka október um 22 milljarða.