Aflaverðmæti úr sjó var tæpir 14,3 milljarðar í mars, sem er 2,3% aukning samanborið við mars 2018. Greint er frá þessu á vef Hagstofu Íslands .

„Verðmæti botnfiskaflans var tæpir 12 milljarðar og jókst um 21,1%. Af botnfisktegundum nam verðmæti þorskaflans 8 milljörðum sem er aukning um 1,4 milljarða samanborið við mars 2018. Verðmæti ýsuafla nam rúmlega 1,4 milljörðum samanborið við 820 milljónir í mars 2018. Af uppsjávartegundum veiddist eingöngu kolmunni en aflaverðmæti hans nam um 1,7 milljörðum samanborið við 445 milljónir í mars 2018. Engin loðna veiddist í mars en aflaverðmæti hennar nam tæpum 2,8 milljörðum í mars 2018. Aflaverðmæti flatfisktegunda var rúmar 655 milljónir samanborið við tæpar 820 milljónir í mars 2018,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Þá kemur jafnframt fram að verðmæti afla sem seldur var til eigin vinnslu innanlands hafi verið rúmir 8,3 milljarðar. Verðmæti sjófrysts afla hafi numið 3,2 milljörðum og verðmæti afla sem fór á fiskmarkaði til vinnslu innanlands verið rúmur 2,1 milljarður. Á 12 mánaða tímabili, frá apríl 2018 til mars 2019, hafi aflaverðmæti úr sjó numið tæplega 132 milljörðum króna sem sé 10,4% aukning miðað við sama tímabil ári fyrr.