*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 9. maí 2018 14:38

Aflaverðmætin jukust um 470%

Mikill munur er á aflaverðmætum milli ára vegna sjómannaverkfalls fyrir ári, en í janúar námu þau 9,3 milljörðum króna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Aflaverðmæti íslenskra skipa í janúarmánuði nam 9,3 milljörðum króna að því er Hagstofan greinir frá. Það er mjög mikil aukning frá sama tíma fyrir ári, eða 470% aukning, en vegna verkfalls sjómanna námu verðmætin þá einungis tæpum 2 milljörðum.

Fór afli að verðmæti rétt um 5,9 milljarða króna til vinnslu innanlands en á markað til vinnslu innanlands fór tæplega 1,5 milljarður.
Ekkert af aflanum var sjófrystur til endurvinnslu innanlands, en fiskur að verðmæti tæplega 350 milljóna fór í gáma til útflutnings. Loks var sjófrystur fiskur að verðmæti tæplega 1,6 milljarðar.

Afli að andvirði tæplega 2,2 milljarða fóru til vinnslu á höfuðborgarsvæðinu, en næst á eftir kom Austurland með tæplega 1,8 milljarða króna afla. Loks Suðurnes með rúmlega 1,7 milljarða og Norðurland eystra um 1,6 milljarða. Af heildarverðmætinu námu verðmæti botnfiskskaflans 6,8 milljörðum króna, og þar af verðmæti þorsksins sem veiddist rúmlega 4,6 milljarðar.

Aflaverðmæti uppsjávartegunda var um 1,9 milljarðar króna og var það svo til eingöngu loðna. Verðmæti flatfiskafla voru tæplega 570 milljónir króna, og verðmæti skelfiskafla nam 15,4 milljónum. Á 12 mánaða tímabili frá febrúar 2017 til janúar 2018 nam aflaverðmæti úr sjó rúmum 117 milljörðum króna, sem er 6,3% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr.