Ríkisstjórnin áætlar að ríkissjóður verði rekinn með halla út árið 2027 en að ríkisreksturinn nái jafnvægi árið 2028. Þetta kemur fram í kynningu Sigurðar Inga Jóhannssonar fjármálaráðherra á fjármálaáætlun 2025-2029.

Áætlað er að ríkissjóður verði rekinn með 49 milljarða króna halla í ár. Gert er ráð fyrir að hallinn nærri helmingast milli ára og verði um 25 milljarðar árið 2025. Áætlun gerir ráð afkoman batni áfram þar á eftir og að ríkissjóður verði rekinn með 3 milljarða afgangi árið 2028.

Úr kynningu fjármálaráðhera.

Kortleggja mögulega eignasölu

Áformaður afkomubati ríkissjóðs er meðal annars rakinn til „óútfærðra ráðstafana“. Í kynningu fjármálaráðherra kemur fram að aukin áhersla verður lögð á kortlagningu eigna ríkisins með það fyrir augum að selja þær og lækka skuldir ríkissjóðs. Ríkissjóður eigi yfir 40 fyrirtæki með samtals eigið fé yfir þúsund milljarða króna.

Jafnframt eigi ríkissjóður um 900 fasteignir með heildarfermetrafjölda upp á 950.000 fermetra og ríflega 400 jörðum en bókfært virði þessara eigna er um 312 milljarðar króna.

Þá segir í kynningunni að stefnt sé að því að selja Íslandsbanka á fyrri hluta fjármálaáætlunar.

Draga úr áformuðum útgjöldum með frestun byggingaverkefna

Helstu ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti felast í meginatriðum til frestun eða niðurfellingu verkefna sem ekki eru hafin, líkt og tiltekin byggingarverkefni. Sigurður Ingi nefndi þar nýja viðbyggingu við Stjórnarráðið og hús viðbragðsaðila sem verður ekki ráðist í á tímabili fjármálaáætlunarinnar.

Meðal annarra atriða sem nefnd voru í þessu samhengi er aukið eftirlit með endurgreiðslum til nýsköpunarfyrirtækja, þrengri skilyrði til endurgreiðslna vegna kvikmyndaverkefna og hagræðingu í rekstri stofnana.