Ríkisstjórn Venesúela þjóðnýtti fyrir helgi enn eitt erlenda fyrirtækið í landinu, í þetta sinn spænska bankann Banco de Venezuela, sem jafnframt er þriðji stærsti banki landsins.

Þjóðnýtingin fer þannig fram að ríkisstjórn Venesúela greiðir spænsku bankakeðjunni Santander 630 milljónir Bandaríkjadala í fyrstu greiðslu fyrir bankann en ríkið kaupir bankann á um einn milljarð dala. Restin af greiðslunni kemur til í lok þessa árs.

Báðir aðilar segjast þó vera sáttir við viðskiptin, en af ólíkum ástæðum.

Hugo Chavez, forseti Venesúela segir gríðarlega mikilvægt að ríkið eignist bankann. Þrátt fyrir að vera þriðji stærsti bankinn í Venesúela er bankinn stærstur á mælikvarða innistæðna en Chavez segir mikilvægt að ríkið „eignist“ það fjármagn og telji það með til eigna hins opinbera, eins og það er orðað í frétt Reuters af málinu.

Santander seldi bankann aftur á móti á mun hærra verði en greitt var fyrir hann á sínum tíma. Forsvarsmenn bankakeðjunnar segja þetta ágætis tækifæri til að losa um eignir í ljósi aðstæðna í alþjóðahagkerfinu.

Nú hafa 29 erlend fyrirtæki verið þjóðnýtt í Venesúela á síðustu tveimur árum, allt frá bönkum, olíufélögum, stálframleiðendum, steypuframleiðendum og líftæknifélögum.