Raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða var um 10,2% á liðnu ári, samkvæmt áætlun Landssamtaka lífeyrissjóða (LL). Þetta er þriðja árið í röð sem ávöxtun lífeyrissjóðanna er langt umfram 3,5% ávöxtunarviðmið.

Við útreikning á raunávöxtuninni er miðað við vegið meðaltal ávöxtunar alls eignasafns sjóðanna. Endanlegar ávöxtunartölur verða birtar síðar, þegar ársreikningar sjóðanna fyrir árið 2021 liggja fyrir.

Hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóða var yfir 35% í lok nóvember 2021. Hlutfallið er komið nálægt 45% hjá samtryggingadeildum nokkurra sjóða, að því er kemur fram í frétt hjá LL. Lífeyrissjóðum er nú einungis heimilt að vera með hlutfall erlendra eigna upp á 50%, en vænst er að heimildir sjóðanna til erlendra fjárfestinga muni aukast, samkvæmt LL.

Sjá einnig: Bregðast þurfi við hundruð milljarða hækkun

Nýjar lífslíkutöflur birtar af fjármála- og efnahagsráðuneytinu gera ráð fyrir áframhaldandi hækkun lífaldurs. Skuldbindingar íslenskra lífeyrissjóða munu því hækka um hundruð milljarða króna. Góð ávöxtun undanfarin ár hefur hins vegar gert það að verkum að margir sjóðir eru í sterkri stöðu til að innleiða breyttar lífslikutöflur án þess að breyta réttindum sjóðfélaga.