Gengi bréfa Icelandair hefur hækkað um 12% það sem af er vikunni en hlutabréfaverð félagsins hækkaði um 3,4% í 247 milljóna viðskiptum dagsins en bréf félagsins hafa nú hækkað fjóra daga í röð eftir að hafa lækkað um 16% seinni hluta janúarmánaðar.

Alls hækkuðu ellefu félög í viðskiptum dagsins en á eftir Icelandair varð mest hækkun á bréfum Iceland Seafood eða 1,53% í 62 milljóna viðskiptum auk þess sem bréf TM hækkuðu um 1,3% í 70 milljóna viðskiptum.

Mest lækkun var á bréfum Skeljungs eða 1,3% í 241 milljóna viðskiptum auk þess sem bréf Eimskips lækkuðu um 0,9% í 21 milljóna viðskiptum.

Úrvalsvísitalan lækkaði lítillega eða um 0,05% og stendur nú í 2.102 stigum.

Velta í viðskiptum dagsins nam tæplega 2,9 milljörðum þar sem mest velta var með bréf Marel sem hreyfðust þó lítið eftir birtingu uppgjörs félagsins í gær en bréfin lækkuðu um 0,8% í 954 milljóna viðskiptum. Viðskipti dagsins voru 176 talsins en tæplega þriðjungur þeirra voru með bréf Icelandair eða 54.